Bjórkvöld: DataMarket, Clara og Pagekite

24.05.2011 09:56

Næsta bjórkvöld verður haldið fimmtudaginn 26.maí kl 20 á efri hæð Sólon.

Bjórkvöldið að þessu sinni verður tileinkað nokkrum af heitustu sprotafyrirtækjum landsins en DataMarket, Clara og Pagekite verða með kynningu fyrir okkur á hinum ýmsu tólum og tækjum sem þeir hafa notað og verið að vinna að.

Hjálmar Gíslason og Borgar Þorsteinsson frá DataMarket munu kynna Protovis sem er JavaScript-lausn sem fellur algerlega að HTML5 staðlinum og notar SVG til birtingar á gögnum í stað Flash.

Jón Eðvald Vignisson tæknistjóri Clara mun segja okkur frá notkun þeirra á MongoDB og öðrum alternative gagnagrunnum.

Bjarni Rúnar Einarsson mun kynna nýjustu útgáfu PageKite og fjalla aðeins um hvernig má nýta hana til að spara tíma við þróun nýrra vefkerfa og hönnun vefsíðna, en PageKite er frjáls hugbúnaður sem tengir "localhost" vefþjón við opna veraldarvefinn.

Skráning á Facebook fyrir þá sem vilja, annars er öllum frjálst að mæta og það kostar ekkert inn!

Nánar um DataMarket og Protovis

DataMarket rekur gagnatorgið DataMarket.com. Þar má finna töluleg gögn frá ýmsum opinberum stofnunum og einkaaðilum, bæði innlendum á borð við Hagstofuna, Seðlabankann og Capacent; og erlendum á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, Alþjóðabankann og Eurostat.

Þannig hjálpar DataMarket notendum sínum bæði að finna gögn frá ólíkum aðilum og skilja þau. Lykilatriði í því síðarnefnda er myndræn framsetning gagnanna.

Þar til nýverið studdist DataMarket við tilbúna lausn til myndbirtingar gagnanna sem byggði á Flash. Þetta hefti að mörgu leyti þróun og dró úr notagildi launsarinnar, sérstaklega þegar kom að iPad og öðrum tækjum sem byggja á iOS. Fyrir um mánuði síðan tók fyrirtækið hins vegar í notkun nýja lausn sem hefur verið í smíðum í nokkurn tíma. Sú lausn byggir á open source verkefni sem nefnist Protovis. Protovis er JavaScript-lausn sem fellur algerlega að HTML5 staðlinum og notar SVG til birtingar. Viðbætur DataMarket ganga síðan þannig um hnútana að lausnin virkar einnig á eldri gerðum Internet Explorer sem og að geta keyrt "server side" og skilað þannig statískum myndum, PDF skjölum og öðru í sjálfvirkum keyrslum.

Hjálmar Gíslason og Borgar Þorsteinsson frá DataMarket munu kynna þessa lausn, þau vandamál sem henni var ætlað að leysa og hvernig tekist var á við þau.

Nánar um Clara

Þróun markaðsrannsókna hefur verið hæg undanfarna öld. Með tilkomu Internetsins og vaxandi áhuga á samfélagsvefjum hefur eðli markaðsrannsókna breyst. CLARA var stofnað með þessa þróun fyrir augum.

Hátæknifyrirtækið CLARA sem býr til viðskiptargreindarhugbúnað er staðsett í Reykjavík. Þar vinna starfsmenn þess við að leysa eitt mest spennandi vandamál sem markaðsfræðingar eiga við. CLARA var stofnað til þess að leysa það vandamál á nýjan og áhrifaríkan hátt. Með því að sameina gervigreind og textagreiningu gefum við viðskiptavinum okkar innsýn í umtal nánast í rauntíma, það er lausnin!

Nánar um Pagekite og Bjarna Rúnar:

Bjarni Rúnar Einarsson hefur verið virkur meðlimur í íslenska tæknisamfélaginu um árabil, aðallega í tengslum við netmál og frjálsan hugbúnað. Hann hefur fengist við kerfistrekstur, hugbúnaðargerð, spam-varnir og vann síðast í 3 ár hjá Google á Írlandi við rekstur á leitarvélinni, álagsdreifikerfum og Bigtable gagnagrunnum. Nú starfar hann hjá sínu eigin sprotafyrirtæki við þróun PageKite.

Bjarni mun kynna nýjustu útgáfu PageKite og fjalla aðeins um hvernig má nýta hana til að spara tíma við þróun nýrra vefkerfa og hönnun vefsíðna, en PageKite er frjáls hugbúnaður sem tengir "localhost" vefþjón við opna veraldarvefinn.

SVEF á FacebookÁhugaverð umræða í Facebook hópnum


SVEF á Twitter Greinar og annað góðgæti á Twitter


SVEF á Vimeo Upptökur frá bjórkvöldum og Iceweb