Frábær vefverðlaun að baki: Takk fyrir kvöldið!

31.01.2014 22:21

Íslensku vefverðlaunin voru afhent í kvöld við hátíðlega athöfn í Gamla Bíó. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var heiðursgestur verðlaunahátíðarinnar.

Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins á Íslandi, haldin með það að markmiði að efla iðnaðinn, verðlauna framúrskarandi verkefni og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2000 og hafa vaxið og dafnað með hverju árinu sem líður.

Að þessu sinni voru veitt verðlaun í 14 flokkum en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að.

Úrslit Íslensku Vefverðlaunanna 2013


Besti íslenski vefurinn
Vefurinn sem hlýtur þennan merka titil er stílhreinn, ferskur, skilvirkur og í senn tæknilega vel útfærður. Sem dæmi má nefna þá er allt myndefni í retina gæðum og það án auka niðurhals fyrir venjulega skjái. Hann uppfyllti allar kröfur dómnefndar um góðan vef og sýndi fáa sem litla veikleika, auk þess að vera með skemmtilegustu "404" síðu ársins.  Vefurinn er snjöll lausn sem virkar vel á öllum tækjum.
Besti íslenski vefurinn 2013 er: nikitaclothing.com
Samstarfsaðili er Form 5

Besta hönnun og viðmót
Þetta er stílhreinn og fallegur vefur sem reiðir sig á einföld form en stundum óhefðbundna stíla til að koma efninu til skila, en gerir það á mjög nútímalegan og smekklegan hátt.  Efni vefsins kemst jafnt til skila á öllum tækjum og skilur notandann eftir í þægilegri ró.
Besta hönnun og viðmót er: haraldurthorleifsson.com
Samstarfsaðili er James Vilhjálmur Dickie

Frumlegasti vefurinn
Frumleiki hefur á sér margar hliðar. Frumleiki getur til dæmis falið í sér frumlega  hönnun, frumlega framsetningu á innihaldi,  frumlegt innihald og frumlega hugmynd. Frumlegasti vefur ársins er klárlega frumleg hugmynd…
Frumlegasti vefurinn er: draumamaðurinn.is
Eigandi er Friðrik Már Jónsson og samstarfsaðili er Finnur Kolbeinsson

Athyglisverðasta verkefnið
Félagsmenn SVEF tóku þátt í kosningu um athyglisverðasta verkefnið úr öllum innsendum tilnefningum. Niðurstaðan var að athylisverðasta verkefni ársins 2013 er: QuizUp

Besti fyrirtækjavefurinn (Lítil og meðalstór fyrirtæki)
Falleg hönnun, flott útfærsla og nýjustu tækni- og tískustraumar einkenna þennan vef að öllu leyti og þótti dómnefnd ástæða til að verðlauna hann fyrir útfærslu á tækni og markmiðum.  Vefur fyrirtækisins er leikandi skemmtilegur, vel útfærður fyrir öll tæki og gefur þá mynd af fyrirtækinu að það sé umtalsvert umsvifameira en starfsmannafjöldinn segir til um.
Besti fyrirtækjavefurinn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er: nikitaclothing.com
Samstarfsaðili er Form 5

Besti fyrirtækjavefurinn (Stærri fyrirtæki)
Vefurinn sem stóð upp úr í þessum flokki og greip athygli okkar frá fyrstu heimsókn er bæði nýstárlegur, glæsilegur og tengingin við vörumerkið einstök. Vefurinn kristallar nýja nálgun á viðfangsefnið, og skilar hlutverki sínu afbragðsvel.
Besti fyrirtækjavefurinn fyrir stærri fyrirtæki er: alvogen.com
Samstarfsaðili er Janúar

Aðgengilegasti vefurinn
Valið á aðgengilegasta vefnum var ansi strembið, en vefurinn sem sigurinn hlýtur aðlagar sig að ólíkum skjástærðum notenda og veitir einstaklingum með fötlun jafnan aðgang og jöfn tækifæri til þess að vafra um vefinn og leita sér upplýsinga. Vefurinn er einfaldur, vel uppsettur og notast við staðlaðar og hefðbundnar aðferðir í framsetningu og miðlun upplýsinga, sem hæfir viðfangsefni og upplýsingum vefsins.
Aðgengilegasti vefurinn er: Fjársýsla ríkisins, fjs.is
Samstarfsaðili er Hugsmiðjan.

Besti innri vefurinn
Við val á besta innri vefnum var bæði litið til fallegrar hönnunar og notagildis vefsins, Vefurinn sýnir nytsemi vefforritunar og vef-virkni og hefur það meginhlutverk að einfalda starfsmönnum vinnu sína, og á fátt sameiginlegt með vefjum sem flokkast undir "rafræna bæklinga", með símaskrá og matseði. Besti innri vefurinn er innra vef-tól þar sem allar aðgerðir á vefnum eru notandanum innan seilingar og virðist sem útfærslan leysi af hólmi aldagamlar aðferðir við þjónustu og viðhald.
Besti innri vefurinn er: thjonusta.mila.is
Samstarfsaðili er Hugsmiðjan og Staki Automation

Besta appið
Besta appið er stórskemmtilegt og fróðlegt app sem ungir jafnt sem aldnir geta auðveldalega gleymt sér í. Appið hefur vakið mikla lukku notenda hérlendis en appið er bæði fallega útfært og auðvelt í notkun. Fólk grípur til þess í verslununum og á kaffihúsum, og notar upplýsingarnar til skrafs og ráðagerða.
Besta appið er: QuizUp

Besta markaðsherferðin á netinu
Verðugt viðfangsefni var nálgast frá áhrifamiklu sjónarhorni og framkvæmt með gagnvirkni á einstaklega frumlegan og athyglisverðan hátt. Skilaboð herferðarinnar ná inn að hjartarótum, tæknileg útfærsla þeirra fær alla tækninörda til að gapa af undrun og síðast en ekki tengjast þau málefnið og áhorfandann á svo áhrifaríkan hátt að það lætur engann ósnortinn. Vefurinn er skilduáfangastaður allra veffarenda.
Besta markaðsherferðin á netinu er: Höldum Fókus
Eigandi verkefnisins er Samgöngustofa og Síminn. Samstarfsaðili er Tjarnargatan.

Besti einstaklingsvefurinn
Besti einstaklingsvefurinn endurspeglar verk og stíl einstaklingsins sem hann stendur fyrir. Verkin eru skemmtilega framsett og vefurinn er litríkur og nýstárlegur.... (vantar eitthvað smá til að loka þessu hér)
Besti einstaklingsvefurinn er: haraldurthorleifsson.com
Samstarfsaðili er James Vilhjálmur Dickie

Besti non-profit vefurinn
Það hefur oft verið sagt að gullna reglan í öllu sé less-is-more, og það á svo sannarlega við hér.  Vefurinn er einfaldur, stílhreinn og fallegur, virkar vel í öllum tækjum, og gerir allt sem ætlast er til af honum.
Besti non-profit vefurinn er: vegvisir.is
Eigandi vefjar er Gunnar Þorvaldsson og samstarfsaðili er Páll Hilmarsson

Besti vefmiðillinn
Vefurinn er einn elsti vefmiðill landsins og nýtur gríðarlegra vinsælda hjá jafnt ungum sem öldnum, en dómnefnd sá ástæðu til að verðlauna vefinn fyrir virðingarverð markmið, einstakt efni og vel heppnaða endurhönnun og framsetningu sem enn frekar styrkir stöðu hans sem einskonar 'institution' sem fáir geta skákað. Vefurinn er hlaðinn spennandi og áhugaverðu efni um allt á milli himins og jarðar, hann er í senn áreiðanlegur, notendavænn og mikilvægur fyrir stóran hluta þjóðarinnar við lausn á fjölbreyttustu verkefnum og spurningum.
Besti vefmiðillinn landsins er: visindavefur.is
Samstarfsaðili er Kosmos & Kaos

Besti opinberi vefurinn
Dómnefnd til mikillar ánægju var samkeppnin hörð um besta opinbera vefinn og margir frambærilegir í framboði. Vefurinn sem var valinn besti opinberi vefurinn er aðlaðandi, skemmtilegur og áhugaverður og kemur efninu vel til skila. Uppsetningin á vefnum er einföld en notendavæn og náði að tengjast notandanum á hátt sem margar opinberar stofnanir eru hikandi við að beita, en skilar þjónustunni og upplýsingum mun betur til notandans en strípaðir "bjúró-speak" stofnanavefir fortiðarinnar.
Besti opinberi vefurinn er: matis.is
Samstarfsaðili er Hugsmiðjan

Vefakademían - Dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna 2013
Eins og fyrri ár var dómnefnd skipuð einstaklingum með sérþekkingu og brennandi áhuga á vefmálum og tók hún að sér að velja þá vefi sem hlutu íslensku vefverðlaunin í ár.

Eftirfarandi sérfræðingar skipuðu dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna 2013:
Formaður dómnefndar: Hilmar Kári Hallbjörnsson, forritari hjá Kosmos og Kaos
Anna Signý Guðbjörnsdóttir, viðmótssérfræðingur hjá TM Software
Dagbjört Ólöf Sigurðardóttir, vefforritari hjá Advania
Eiríkur Heiðar Nilsson, forritari hjá OZ
Jón Frímanns, vefhönnuður hjá Hugsmiðjunni
Sigurður Högni Jónsson, vefstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis
Þórlaug Ágústsdóttir, sérfræðingur í upplýsingatækni

SVEF á FacebookÁhugaverð umræða í Facebook hópnum


SVEF á Twitter Greinar og annað góðgæti á Twitter


SVEF á Vimeo Upptökur frá bjórkvöldum og Iceweb