Bestu vefir landsins - Úrslit vefverðlaunanna 2014

Bestu vefir landsins - Úrslit vefverðlaunanna 2014

30.01.2015 19:15

Íslensku vefverðlaunin voru afhent fyrr í dag við hátíðlega athöfn í Gamla Bíó.

Íslensku vefverðlaunin eru árleg uppskeruhátíð vefiðnaðarins á Íslandi, haldin með það að markmiði að efla iðnaðinn, verðlauna framúrskarandi verkefni og hvetja þá sem starfa í vefiðnaðinum til dáða. Vefverðlaunin hafa vaxið og dafnað með hverju árinu, þau voru fyrst veitt árið 2000 en undanfarin ár hefur dómnefnd farið yfir  á annað hundrað tilnefningar.

Í ári voru veitt verðlaun í 15 flokkum  en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að. Dómnefnd valdi sigurvefina í 13 flokkum en félagsmenn SVEF völdu athyglisverðasta vefinn.

Besti íslenski vefurinn 2014
Árið 2014 var tímamóta ár þegar kemur að rafrænni þjónustu á Íslandi, og iðnaðurinn heldur áfram að senda frá sér hvert annað glæsilegt verkefnið á fætur öðru. Stór hluti af liðnu ári snerist um rafræn samskipti, og öruggan aðgang að eigin upplýsingum, þá með rafrænni auðkenningu, sem býður upp á nýja möguleika á útfærslum fyrir hugmyndir sem hafa jafnvel legið í hugum manna árum saman. Þá þótti dómnefnd eitt tilnefnt verkefni sérstaklega skara framúr í þessu samhengi, framtak sem yrði að viðurkenna, og verðlauna. Verkefnið sem um ræðir veitir íslendingum nýja yfirsýn og áður óþekkt þægindi í samskiptum við heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Sigurvegari: heilsuvera.is
Samstarfsverkefni TM Software, Embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Athyglisverðasti vefurinn (valinn af félagsmönnum SVEF)
blaer.is
Birna og 'crew'

Frumlegasti vefurinn
Sigurvegarinn í þessum flokki þykir hafa fram að færa frumlega nálgun til að skapa ákveðin hugrenningatengsl við verkefnið. Notandinn fær að upplifa veruleika ákveðins hóps sem lendir í ákveðnum aðstæðum og getur hann haft áhrif á söguþráðinn.  Hugmyndin er óhefðbundin og útfærð á nýstárlegan hátt þar sem m.a. annar vinkill birtist á vefnum ef horft er á hann í gegnum snjallsíma. Með bullandi gæsahúð hefur dómnefnd því ákveðið að veita Öruggborg.is verðlaun fyrir frumlegasta vefinn.
Sigurvegari: oruggborg.is
UN women á Íslandi og Síminn
Samstarfsaðilar:
Hugmyndavinna og framleiðsla: Tjarnargatan
Viðmótshönnun: Playmo
Forritun: Hreinn Beck

Besti fyrirtækjavefurinn (færri en 50 starfsmenn)
“Ef þú getur ekki útskýrt hlutinn á einfaldan hátt, þá skilurðu hann ekki nógu vel.” Þetta fullyrti Albert Einstein á sínum tíma, og standa þau orð enn í dag. Sigurvegari þessa flokks vissi greinilega hvað hann var að vinna með, því að mati dómnefndar uppfyllir vefurinn þarfir notenda sinna vel. Það mikla upplýsingaflæði sem hann þarf að birta er sett fram á hnitmiðaðann, einfaldann og stílhreinan hátt. Ekki skemmir fyrir að vefurinn hefur að geyma hluti sem okkur finnst skemmtilegt að sækjast eftir, og þó að einstaka viðburðir slái hann stundum útaf laginu, þá er hann almennt hraðvirkur og þjónar sínum tilgangi vel.

Besti fyrirtækjavefurinn með færri en 50 starfsmenn: midi.is
Samstarfsaðili er Skapalón

Besti fyrirtækjavefurinn (fleiri en 50 starfsmenn) 

Vefurinn er glæsilegur, stílhreinn og þægilegur í notkun. Myndefni er sérlega vel útfært og upplifun vefsins eftir því. Sumir segja að það sé ekki hægt að gera allt efni áhugavert en hér hefur verið þaggað niður í þeim gagnrýnisröddum.

“Fyrr á tímum þöktu regnskógar um 14% af þurrlendi jarðar en nú er talið að þeir þeki aðeins um 6% þurrlendis. Samkvæmt mati vísindamanna er árleg eyðing regnskóga einhvers staðar á bilinu 50.000 til 75.000 km2 eða sem nemur rúmlega hálfu Íslandi.”

Það er óvíst hvort stjórnendur fyrirtækisins hafi haft þetta í huga þegar sú ákvörðun var tekin að ráðast í þetta verkefni, en stefnu og starfsemi fyrirtækisins hefur vissulega verið komið til skila á þann máta að hægt sé að liggja yfir og njóta. Því er mat dómnefndar, að glæsileg og auðlesin rafræn framsetning á Árskýrslu Landsvirkjunar sé framfaraskref sem eigi lof skilið.

Sigurvegari: Árskýrsla Landsvirkjunnar 2014
Samstarfsaðili: Jónsson & Le´macks

Aðgengilegasti vefurinn

Vefur Háskólans í Reykjavík nær að koma miklu magni upplýsinga til skila á tiltölulega skýran, einfaldan og aðgengilegan hátt. Hægt er að komast í alla virkni vefsíðuanr með lyklaborðinu einu saman (þ.e.a.s. án músar) 
Notandi sem reiðir sig á lyklaborð getur alltaf séð hvar fókusinn er staðsettur á vefsíðunni. Litavalið er gott og litamótstaðan þess eðlis að notendur geta lesið allar upplýsingar, þmt fólk með sjónskerðingu eða litskerðingu.
Fyrirsagnir og kennileyti eru notuð til þess að brjóta síðuna niður í hluta og gera skjálesaranotendum auðvelt fyrir að finna þann hluta síðunar sem þeir hafa áhuga á á skilvirkan hátt.
Sigurvegari:
Vefur Háskólans í Reykjavík
Samstarfsaðili: Hugsmiðjan og Skapalón

Besti innri vefurinn
Vefurinn er einfaldur, aðgengilegur og leysir að mati dómnefndar þau hlutverk sem innri vefur þarf að leysa, þ.e. að auðvelda dagleg störf sem og að efla samskipti starfsmanna. Auk þess að birta miðlægt praktískar upplýsingar tengdar starfsemi fyrirtækisins, líkt og handbækur, tól og tæki.  Þá höfðar hann meðal annars til starfsfólks með virku bloggi, öflugum flóamarkaði og vettvangi fyrir félagslíf starfsmanna. Eftir að hafa opnað frábæran ytri vef árið áður, og hlotið verðlaun fyrir á síðustu hátið, er ljóst að risaeðlan er ekki aðeins komin með vængi, hún hefur tekið á hátt og mikið flug!
Sigurvegari: Innri vefur Fjársýslu ríkisins
Samstarfsaðili er Hugsmiðjan

Besta þjónustusvæðið
Fjölmörg efnileg þjónustusvæði voru tilnefnd í ár, en sigurvegarinn þótti skara sérstaklega framúr á sínum vettvangi. Praktísk framsetning efnis, nýstárleg hönnun og viðmót og tæknilegar framfarir bakvið tjöldin haldast þétt í hendur við að gera þetta að jákvæðri innspýtingu í þann litla heim sem íslenskir neytendur lifa við á þessu sviði. Hér er auðvitað átt við nýjan netbanka Landsbankans.
Sigurvegari: Netbanki Landsbankans
Landsbankinn

Besta appið

Með sívaxandi notkun snjallsíma hafa fjölmörg íslensk öpp litið dagsins ljós. Mörg þeirra eru áhugaverð og standast hiklaust erlendan samanburð. Það er mat dómnefndar að besta appið að þessu sinni sé á heimsmælikvarða.

Hönnun er viðeigandi og nýtur sín hvar sem notandi er staddur í appinu, og eru allar aðgerðir auðfinnanlegar og einfaldar í framkvæmd. Dómnefnd er sérstaklega hrifin af þróun appsins og bíður spennt eftir frekari uppfærslum.

Sigurvegari: Strætó
Samstarfsaðili er Stokkur

Besta markaðsherferðin á netinu
Hugmyndin er að mati dómnefndar frumleg, einföld og síðast en ekki síst krúttleg, sem endurspeglaðist greinilega í gríðarlegri útbreiðslu á samfélagsmiðlum með þátttöku almennings. Markmið herferðarinnar var að styrkja tilfinningaleg tengsl Íslendinga við verkefnið, og minna á hvað það væri gott að láta gott af ser leiða. Með nostalgíuna í hámarki, og tombólukynslóðina sem markhóp er því sannur heiður að veita “Göngum til góðs” verðlaun fyrir bestu markaðsherferðina 2014.
Sigurvegari: Göngum til góðs - Rauði Krossinn
Samstarfsaðili Hvíta húsið / Rósa Hrund Kristjánsdóttir

Besti einstaklings vefurinn
Metnaðarfullt framtak einstaklings sem hefur með þessu framtaki sýnt fram á að aðgengi að gögnum er eini hvatinn sem þarf til að útfæra notendavænar, snyrtilegar lausnir. Þökk sé honum stöndum við sterkari gegn því mikla vandamáli sem margir standa reglulega frammi fyrir, sem er að sjá sýningar allra kvikmyndahúsa á einum stað.
Sigurvegari: hvaderibio.is
Höfundur:Hugi Hlynsson

Besti non-profit vefurinn
Vefurinn er einfaldur og þægilegur í viðmóti og með skýran tilgang, þ.e. að veita aðgengi að þeim upplýsingum sem notandinn sækir, hratt og örugglega. Tæknileg útfærsla þykir einstaklega vel heppnuð, en vefurinn sameinar upplýsingar frá ólíkum þjónustuveitendum á einum stað. Vefurinn er að mati dómnefndar einföld lausn, á einföldu vandamáli, í þeim eina tilgangi að gera líf fólks einfaldara.
Sigurvegari: hvaderibio.is
Hugi Hlynsson

Besti vefmiðillinn

Gríðarlega mikil breyting hefur orðið á notkun fjölmiðla á síðustu árum og tilfærsla í lestri og áhorfi frá prent- og ljósvakamiðlum yfir á netið er staðreynd.

Þar sem tæknin og netnotkun fólks breytist mjög ört þurfa vefmiðlar að vera í stöðugri þróun og í þeim efnum eru samfélagsmiðlar og snjallsímavæðingin miklir áhrifavaldar. Besti vefmiðillinn varð til í þessum suðupotti og orðið gríðarlega vinsæll á mettíma. mikil samkeppni á íslenskum örmarkaði hefur ekki stöðvað hann, heldur miklu frekar eflt hann.

Besti vefmiðllinn er mjög aðgengilegur, virkar vel í öllum tækjum, hefur fjölbreytt efnistök og nálgast þau á ferskan hátt. Besti vefmiðillinn er heldur ekki feiminn við samfélagsmiðla og nýtir þá sérstaklega vel.

Sigurvegari: nutiminn.is

Fálki útgáfa ehf.

Besti opinberi vefurinn
samgongustofa.is
Samstarfsaðili er Hugsmiðjan og Fúnksjón vefráðgjafar

Besta hönnun og viðmót

Vefurinn endurspeglar vörumerki fyrirtækisins á stílhreinan hátt með fallegum myndum, skemmtilegri grafík og þægilegu og einföldu viðmóti þar sem hvergi er verið að flækja hlutina fyrir notendum. Pöntunarferlið er með einfaldasta móti og hefur vefstefna þeirra gert fyrirtækið að brautryðjendum í að seðja hungur Íslendinga með nokkrum músasmellum. Því þykir við hæfi að veita Dominos.is verðlaun, fyrir bestu hönnun og viðmót.
Sigurvegari: dominos.is
Samstarfsaðili er Skapalón

fylgstu með @samtokvef á Twitter og taktu þátt í umræðunum með hashtagginu #vefverdlaun

SVEF á FacebookÁhugaverð umræða í Facebook hópnum


SVEF á Twitter Greinar og annað góðgæti á Twitter


SVEF á Vimeo Upptökur frá bjórkvöldum og Iceweb