Fjöldi verkefna hlutu verðlaun og viðurkenningar á Íslensku vefverðlaununum, en í tilefni þess verður kafað dýpra í hvernig þau urðu að veruleika með þeim sem bjuggu þau til. Rætt verður um hönnun, forritun og almennt um þróun og vinnslu slíkra verkefna svo allir ættu að fá eitthvað við sitt hæfi úr þessum viðburði.
Á Íslensku vefverðlaununum sem voru haldin við hátíðlega athöfn í febrúar voru veitt verðlaun og viðurkenningar í 11 flokkum.
Við höfum fengið aðstandendur tveggja verðlaunavefja til að koma og kafa dýpra í ferli hönnunar, forritunar og almennt í þróun og vinnslu slíkra verkefna. Það má því segja að það verði eitthvað fyrir alla.
Vefurinn Marel.com sem hlaut verðlaun fyrir hönnun og viðmót verður kynntur af þeim Orra Eyþórssyni og Ívari Oddssyni frá Kolibri.
Þá munu þeir Atli Þór Árnason og Samúel Þór Smárason frá Kolofon kynna vef Vesturbyggðar en hann hlaut verðlaun fyrir vef ársins og opinberan vef ársins.
Um er að ræða hádegisviðburð þannig að kjörið er að hóa saman vini og vinnufélaga til þess að fræðast um verðlaunavefi, styrkja tengslanetið og fá sér gott að borða.
Fundurinn fer sem fyrr fram á Nauthóli og hefst kl 11:30, en rukkað verður hóflegt gjald til að dekka kostnað og veitingar. Verð fyrir þá sem standa utan Samtaka vefiðnaðarins er 10.500 kr, en félagar SVEF fá tæplega 40% afslátt og greiða aðeins 6.500 kr. Vinsamlegast athugið að ef miði er keyptur á meðlimaverði þá verður viðkomandi skráður í félagið (sé hann ekki félagi fyrir) og fær rukkun á ársgjaldi uppá 14.900 kr samhliða lægra verðinu. Flest fyrirtæki eru reiðubúin að greiða árgjöld fyrir starfsfólk sitt.
Nauthóll er margrómaður fyrir girnilegan og hollan mat, en á fundinum verður borinn fram réttur dagsins ásamt kaffi og konfekti. Ef ástæða er til að gera ráð fyrir sérstökum kröfum vegna veitinga, t.d. vegan, vegeterian, ofnæmi o.s.frv. hvetjum við þig til að hafa samband tímanlega við [email protected].
Fyrirtækjamiðar:
Ef þitt fyrirtæki vill kaupa miða og greiða með bankamillifærslu og fá reikning á kennitölu er best að senda póst á [email protected] með upplýsingum um miðafjölda, kennitölu, síma og netfang kaupanda. Tix klárar greiðsluferlið með ykkur og sendir síðan miðana til ykkar á tölvupósti.
–
Nemamiðar:
Námsmönnum og einstaklingum utan vinnumarkaðar gefst tækifæri á að kaupa miða á viðburðinn á SVEF verði, 6.500 kr.